listdansskólinn í nokkrum orðum fyrir nýja nemendur

Listdansskóli Íslands var stofnaður árið 1952 og hefur haldið þeirri sérstöðu að vera í fararbroddi  listdans á Íslandi. Við skólann hafa alla tíð starfað úrvalskennarar og er ákveðið mat lagt til grundvallar inntöku nemenda sem fram fer að vori og hausti. Rafræn skráning fyrir veturinn 2011 til 2012 er nú í fullum gangi og fara inntökuprófin fram laugardaginn 30. apríl næstkomandi. 

Í Listdansskóla Íslands fer fram öflug og metnaðarfull danskennsla þar sem gæði, skilningur, þekking og fagmennska eru lykilatriði. Námið í Listdansskólanum einkennist fyrst og fremst af mikilli og góðri tæknivinnu. Kröfur eru gerðar um aga og ástundun. Jafnframt er lögð áhersla á að í skólanum ríki gott andrúmsloft þar sem nemendum geti liðið vel. Listdansnámi skólans er skipt í tíu samliggjandi stig: sjö stig á grunnskólastigi, 9 til 15 ára, og þrjú stig á framhaldskólastigi, 16 ára og upp úr.

Listdansskóli Íslands hefur það að meginmarkmiði að mennta framtíðarlistdansara og undirbúa nemendur fyrir nám á háskólastigi. En það er einnig markmið skólans að veita þeim nemendum sem stunda námið sér til ánægju, framúrskarandi kennslu og  þjálfun og veita þeim innsýn í aðra framtíðarmöguleika tengda dansinum. 

Listdansskóli Íslands hefur sýnt fram á að hann hefur um árabil byggt upp hæfileikaríka og sterka atvinnudansara. Nemendur hafa sýnt framúrskarandi árangur hér á landi í undankeppni í klassískum sólóum fyrir norrænu keppnina Stora Daldansen sem haldin er árlega í Svíþjóð og hafa jafnframt aðrir náð einstaklega góðum árangri í keppninni sjálfri. Nemendur úr Listdansskólanum hafa fengið inngöngu í virta skóla eins og Juilliard í New York, P.A.R.T.S Í Brussel, sænska ballettskólann og víðar. Enn aðrir hafa farið beint í atvinnumennskuna hjá Íslenska dansflokknum, IT DANZA, Scapino, Gautaborgarballettinum, Hanover-ballettflokknum og víðar. Margir hafa unnið sem sóló- og aðaldansarar við ýmsa dansflokka bæði í Evrópu, Asíu og í Bandaríkjunum. Þá gerðu nemendur Listdansskólans mikla lukku á Keðju í Kuopio sumarið 2009 og hlutu þeir styrk frá Finnlandi til að sækja hátíðina í Kuopio 2010. 

Listdansskóli Íslands setur upp þrjár nemendasýningar á ári í atvinnuleikhúsum, bæði á haustönn og vorönn. Með því að sýna fyrir áhorfendur öðlast nemendur mikilvæga reynslu í því að koma fram og fá að njóta sín á stóru sviði. Nemendasýningar Listdansskólans hafa verið einstaklega metnaðarfullar og glæsilegar og er það gleðiefni að samvinna við íslensk tónskáld og hljóðfæraleikara hefur aukist síðustu ár. Listdansskóli Íslands mun setja upp veglega afmælissýningu árið 2012 í tilefni þess að  þá eru 60 ár eru frá stofnun hans.