Nemendur grunndeildar eru á aldrinum 9-15 ára og skiptast í 1. – 7. stig. Nemendur útskrifum við af 7. stigi á sama tíma og þau klára 10. bekk grunnskóla.

Í grunndeild leggjum við mikla áherslu á að nemendur læri og tileinki sér rétta stöðu og líkamsbeitingu sem er lykillinn að því að geta framkvæmt erfið spor listdansins. Nemendur læra öguð vinnubrögð, samvinnu í litlum og stórum hópum, tjáningu á sviði og fleira og fleira.
Á fyrstu stigum námsins er aðaláherslan á klassískan ballett enda sannað að þar fá nemendur sterkan grunn fyrir allan annan listdans sem koma skal. Strax á öðru stigi byrja nemendur að læra spuna sem örvar sköpunargleði og tjáningu þeirra með ýmsum skemmtilegum æfingum. Nútímadans kemur svo inn síðustu þrjú stig grunndeildar en einnig læra nemendur karakterdans einn vetur.
Táskókennsla hefst á 4. stigi í Listdansskóla Íslands enda sýna rannsóknir að bein í fótum stúlknanna eru ekki tilbúin fyrir álagið sem því fylgir fyrr en um 12-13 ára aldur. HÉR má lesa grein IADMS – International Association for Dance Medicine & Science sem útlistar mjög vel hvað hafa ber í huga áður en byrjað er að æfa á táskóm.