Listdansskóli Íslands býður uppá öflugt grunnnám 9-16 ára og svo framhaldsnám til stúdentsprófs í listdansi á bæði nútímalistdansbraut og klassískri listdansbraut.

Á nútímalistdans-brautinni fá nemendur sterkan tæknilegan grunn auk þess sem mikil áhersla er á skapandi þáttinn þar sem nemendur læra að semja dansverk. Nemendur á klassískri braut fá svo sterka tæknilega undirstöðu með áherslu á klassíska balletttækni auk nútímadansins.
Nám í Listdansskóla Íslands hefur það markmið að mennta framtíðarlistdansara og danshöfunda og undirbúa nemendur sem vilja halda áfram dansnámi á háskólastigi. Einnig þykir mikilvægt að þjálfa nemendur sem stunda nám sér til ánægju en gera kröfur til námsins og sjá jafnvel aðra framtíðarmöguleika með náminu eins og að verða dansfræðingar, danshöfundar og danskennarar. Nemendum er veitt kennsla í tæknilegum og listrænum greinum. Þeir fá þjálfun í sjálfstæðum og skapandi vinnubrögðum. Auk þess er lögð áhersla á færni í því að vinna í hópum. Það að njóta lista, menningar og þekkja sögu listdansins í gegnum námið, er mikilvægur þáttur í starfi skólans.
Mikill meirihluti íslenskra atvinnudansara og danshöfunda hafa lært við Listdansskólann og nemendur hans hlotið inngöngu í virta skóla erlendis að námi loknu. Námið veitir því mjög sterkan grunn og undirbúning fyrir atvinnumennsku.