Beint streymi frá SOLO keppni á sunnudag

Næstkomandi sunnudag verður hin árlega SOLO keppni haldin í Borgarleikhúsinu en þar gefst ungum listdansnemendum færi á að spreyta sig á klassískum sólóum úr hinum ýmsu verkum ballettbókmenntanna.

Hægt er að kaupa aðgang að beinu streymi HÉR og við hvetjum að sjálfsögðu alla áhugasama nemendur sem og annað ballettáhugafólk til að fylgjast með þessum efnilegu nemendum. Keppnin hefst klukkan 15 og tekur um 1-1,5 klukkustund.

Benedikt Gylfason nemandi okkar dansaði í úrslitum sænsku keppninnar 2019 og hlaut sérstök verðlaun

Að þessu sinni eru 17 ungir dansarar skráðir til keppni en auk þeirra dansa tvær stúlkur sem halda sínum keppnisrétti frá í fyrra þar sem keppnin útí Svíþjóð féll niður vegna Covid. Tólf nemendur Listskóla Íslands taka þátt auk nemenda frá Klassíska listdansskólanum .

Keppnin hér heima er undankeppni fyrir ballettkeppni í Svíþjóð þar sem saman koma nemendur frá norðurlöndum og baltnesku löndunum. Keppnin hefur undanfarna áratugi verið haldin í “Dalarna” í Svíþjóð, hét lengi Stora Daldansen og seinna Nordic, baltic ballet competition en næsta sumar verður keppnin haldin undir nýju nafni Prix du Nord, á nýjum stað í Gautaborg. Ef Covid leyfir þá verður keppnin úti haldin um miðjan júní. “Vi håller tummarna” eins og svíar segja.

Það er Félag íslenskra listdansara sem hefur yfirumsjón með skipulagi keppninnar hér heima en auk þess koma þátttökuskólarnir að undirbúningi.

Þegar þetta er skrifað eru örfáir miðar eftir í sal en takmarkað magn miða er í sölu vegna Covid. https://tix.is/is/event/10922/solo-undankeppni-grand-prix-du-nord/