All posts by listdansskoliislands

Framhaldsdeild skólasetning

Starf framhaldsdeildar hefst með formlegri skólasetningu miðvikudaginn 19.ágúst klukkan 14:00

Þar verða afhentar stundatöflur, farið yfir veturinn og starf skólans.

Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 20.ágúst

Ekki er haldið annað inntökupróf fyrir framhaldsdeildina að hausti en nemendum er boðið að koma í prufutíma með viðeigandi hóp.  Áhugasömum er bent á að hringja í síma 588 9188 eða skrá sig í gegnum rafrænu skráninguna í dálkinum hér til hliðar.

Nemendur og kennarar komin heim frá Kuopio

Þá eru komin aftur heim 8 ungmenni af 7.stigi Listdansskólans sem voru í Finnlandi síðastliðna viku og tóku þar þátt í samnorrænu verkefni Corridor sem aftur var hluti af öðru norrænu/baltnesku samstarfi sem kallast Keðja. 

Keðjuverkefnið er 3ja ára verkefni norrænu landanna fimm ásamt Litháen þar sem danslistamenn hittast og ræða sameiginleg áhuga- og baráttumál.  Þetta var þriðja Keðjuráðstefnan sem er haldin og var fókusinn að þessu sinni á menntun barna og ungmenna í dansi.  Tveir kennara skólans þau Helena og Mummi fóru því á ráðstefnuna og drukku þar í sig þekkingu sem vonandi kemur að góðum notum í starfi Listdansskólans.  Í tengslum við Keðju-Kuopio var svo blásið til samstarfsverkefnisins Corridor þar sem dansnemendur frá löndunum 6 sameinast í 75 mínútna danssýningu.  Finninn Isto Turpeinen hafði yfirumsjón með verkefninu – samdi hluta dansins fyrir finnana ásamt tengingum milli atriða og nokkurra atriða sem krakkarnir dönsuðu saman. Hvert land var annars með sinn danshöfund og var Lára Stefánsdóttir danshöfundur fyrir íslenska hópinn.   
Krakkarnir stóðu sig afskaplega vel og var eftir því tekið hversu sterkir performerar þau eru. Stolt Íslands sverð og skjöldur en sýningin fór einmitt fram 17.júní.  

Á þessari mynd sjáum við íslensku krakkana; Elleni Margréti, Fjólu, Gunnhildi, Karl Friðrik, Kolbein, Sigríði Ólöfu, Styrkár og Viktoríu ásamt Láru Stefánsdóttur og Jorma Uotonen hinum fræga finnska danshöfundi sem nú er listrænn stjórnandi Kuopio Dansfestival.  Jorma kenndi öllum krökkunum tíma einn daginn. 

Rafræn Skráning

Eins og glöggir lesendur síðunnar væntanlega átta sig á þá hefur nýr valmöguleiki bæst við í valmyndinni hérna til hægri.  Núna geta nýnemar skráð sig í skólann hérna á vefsíðunni með því að fylla út einfalt eyðublað.  Starfsfólk skólans mun svo hafa samband eins fljótt og auðið er varðandi inntökupróf eða prufutíma. 

Útskrift þriggja nemenda

Þriðjudaginn 26.maí útskrifuðust þær Inga Huld Hákonardóttir, Steinunn Jónsdóttir og Þórunn Edda Sigurjónsdóttir úr framhaldsdeild Listdansskóla Íslands.  Það verður spennandi að sjá hvað þessar fallegu stúlkur taka sér fyrir hendur í framtíðinni og erum við kennarar og starfsfólk mjög stolt af þeim eins og öðrum nemendum okkar.  

Við óskum þeim alls hins besta í lífinu og eigum örugglega eftir að sakna þeirra mikið.  

Sigrún Ósk í úrslit í Stora Daldansen ballettkeppninni

Sigrún Ósk Stefánsdóttirkomst áfram í 15 manna úrslit í Stora Daldansen ballettkeppninni í Mora, Svíþjóð síðastliðna helgi.  Tveir nemendur fóru frá Listdansskólanum í ár ásamt Birgitte Heide sem hafði veg og vanda af æfingum fyrir keppnina eins og svo oft áður.  Þetta er annað árið í röð sem Listdansskólinn á keppanda í úrslitum en í fyrra komst Frank Fannar Pedersen einnig í 15 manna úrslitin.  Þetta verður að teljast góður árangur og til marks um gæði kennslunnar og starfsins hérna í skólanum hjá okkur.  

Við óskum Sigrúnu til hamingju með þetta og hlökkum til að sjá hvað hún gerir í framtíðinni !

Lára Stefánsdóttir ráðin nýr skólastjóri Listdansskóla Íslands

Lára Stefánsdóttir hefur verið ráðin nýr skólastjóri Listdansskóla Íslands í stað Laurenar Hauser sem hverfur nú til annarra verka.  Lára tekur formlega við starfinu 26. maí n.k. og mun á næstu vikum vinna með starfsmönnum skólans að undirbúningi næsta skólaárs.  

Lára er með meistaragráðu í “Choreography” frá Middlesex University í London.  Hún hefur áralanga reynslu sem dansari og danshöfundur og hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín víða um heim.  Lára hefur kennt við Listdansskólann undanfarin ár.

Alls bárust sjö umsóknir um starfið.  Stjórn skólans skipaði sérstakan ráðgjafahóp sérfræðinga til að fara yfir umsóknir og leggja mat á þær miðað við þær kröfur sem lýst var í auglýsingu.  Á grundvelli mats ráðgjafahópsins boðaði stjórn fjóra umsækjendur í viðtöl og varð niðurstaðan sú að óska eftir þvi við Láru Stefánsdóttur að hún tæki að sér starfið.

Um leið og stjórn og starfsmenn þakka Lauren fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum og velfarnaðar í nýju starfi bjóða þau Láru hjartanlega velkomna. 

Vorsýning 2009

Árleg vorsýning Listdansskóla Íslands verður 8. apríl á Stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu.  Sýningarnar verða tvær, fyrri kl. 17:00 og seinni kl. 20:00.  Miðasala er hafin í Borgarleikhúsinu og kostar miðinn 2000 kr.   Ókeypis er fyrir börn 5 ára og yngri.