Velkomin til náms við Listdansskóla Íslands !
Hér ætlum við að fara í gegnum nokkur atriði sem skipta máli varðandi námið hér við skólann svo bæði nemendur og foreldrar viti til hvers er ætlast og hvert skal leita ef einhverjar spurningar koma upp.
SKÓLADAGATAL
Grunndeildin starfar 16 vikur að hausti og 20 vikur að vori. Vetrarfrí er um sama leiti og vetrarfrí grunnskóla Reykjavíkur – ekkert vetrarfrí er á vorönn en hinsvegar tökum við páskafrí.
Skóladagatal með helstu viðburðum og nákvæmum dagsetningum má finna á vefsíðu skólans
MÆTING
Árangur í listdansnámi byggist fyrst og fremst á ástundun og mætingu í tíma. Því er mikilvægt að nemendur mæti sem best á allar æfingar ekki síst í aðdraganda prófa eða sýninga. Þegar einhvern vantar á æfingu fyrir sýningu þá hefur það áhrif á alla aðra í dansinum sem þurfa að gera ráð fyrir manneskjunni sem vantar.
Það er mikilvægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans og/eða tala við kennara fyrirfram þegar nemandi þarf að fá leyfi. Þá getur kennari undirbúið æfinguna betur og fjarvist kemur ekki á óvart.
Óútskýrð fjarvist kemur fram sem skróp á einkunnablaði.
SKÓLABÚNINGUR
Nemendur skulu klæðast skólabúningum og öðrum viðeigandi klæðnaði í tímum skólans. Skólabúningur skapar liðsheild og fallegt yfirbragð auk þess sem auðveldara er fyrir kennara að leiðbeina ef heildarmyndin er hrein.
Nánar má lesa um skólabúninga á vef skólans en verslunin Ástund veitir nemendum afslátt af öllu því sem til þarf.
SÝNINGAR
Skólinn er með tvær fastar sýningar á hverju skólaári, jólasýningu og svo vorsýningu. Auk þess taka nemendur reglulega þátt í ýmsum öðrum sýningum/uppákomum og er þá valið sérstaklega í þau verkefni. Það er mjög mikilvægt að láta vita tímanlega ef nemandi getur ekki verið með í sýningu svo kennari sé ekki að semja dans og gera ráð fyrir nemanda sem verður svo ekki með á sýningardegi. Allar þannig breytingar kosta mikla aukavinnu bæði fyrir kennara og samnemendur. Við berum virðingu fyrir leikhúsinu og hvert öðru og allir leggjast á eitt að gera sýningarnar sem glæsilegastar. Gera má ráð fyrir aukaæfingum fyrir sýningar
PRÓF
Próf eru tvisvar á ári og fara þannig fram að prófdómarar horfa á tíma sem kennari hefur undirbúið. Dómararnir gefa einkunn og skrifa niður punkta um það sem betur má fara og eins það sem vel er gert. Nemendur þurfa að standast próf til að halda áfram uppá næsta stig en það heyrir til undantekninga að nemendur falli.
MARKMIÐ MEÐ NÁMI
Í Listdansskóla Íslands bjóðum við uppá hágæða listdanskennslu hjá reyndum kennurum í bland við yngri kennara.
Þó danskennslan sé okkar helsta markmið þá læra nemendur svo margt annað í leiðinni eins og til dæmis öguð vinnubrögð, hlustun, sköpun, skipulag og að vinna saman í hóp.
Lykillinn að árangri í náminu er jákvæður agi þar sem allir leggjast á eitt um að skapa gott andrúmsloft. Skólareglur búa til ramma utan um starfið og ef allir leggjast á eitt þá verður árangurinn þeim mun meiri.
Við viljum ekki bara þjálfa góða dansara heldur líka ala upp góðar manneskjur sem búa að náminu við skólann löngu eftir að því lýkur og hvort sem nemandi haldi áfram og verði atvinnudansari eða ekki.